Fara í innihald

Pedro Calomino

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Pedro Calomino
Upplýsingar
Fullt nafn Bleo Pedro Fournol Calomino
Fæðingardagur 13. mars 1892(1892-03-13)
Fæðingarstaður    Buenos Aires, Argentína
Dánardagur    12. janúar 1950 (57 ára)
Leikstaða Kantmaður
Meistaraflokksferill1
Ár Lið Leikir (mörk)
1911-21 Boca Juniors 28 (12)
1914 Hispano Argentino (?)
1915-24 Boca Juniors 194 (85)
Landsliðsferill
1917-1921 Argentína 37 (5)

1 Leikir með meistaraflokkum og mörk
talið í aðaldeild liðsins.

Bleo Pedro Fournol, betur þekktur sem Pedro Calomino eða bara Calomin (f. 13. mars 1892 - d. 12. janúar 1950) var knattspyrnumaður frá Argentínu sem lék á hægri kanti. Hann spilaði mestallan feril sinn fyrir Boca Juniors og var lykilmaður í argentínska landsliðinu sem varð Suður-Ameríkumeistari 1921. Calomino er einn fjölmargra leikmanna sem eignaður hefur verið heiðurinn að því að taka „skæri“ í knattspyrnu.

Ævi og ferill

[breyta | breyta frumkóða]

Útsendari á vegum Boca Juniors rakst á Calomino spilandi fótbolta úti í móa og fékk hann til liðs við félagið. Hann komst í aðalliðið árið 1911, en Boca var um þær mundir í næstefstu deild. Árið 1912 gekk hann í raðir Argentino de Quilmes og lék þar í eitt keppnistímabil. Næstu árin flakkaði hann milli Boca, Argentino de Quilmes og Hispano Argentino en endaði hjá Boca Juniors árið 1915 og lék þar til loka ferils síns árið 1924.

Hann varð argentínskur meistari með Boca árin 1917, 1919, 11920 og 1921. Hann varð sex sinnum markahæsti leikmaður liðsins og vann ýmsar smærri bikarkeppnir. Til marks um vinsældir Calomino meðal stuðningsmanna Boca Juniors var hann skipaður fánaberi á vígsluhátið nýs heimavallar félagsins, La Bombonera, árið 1940.

Landsliðsferill Calomino stóð frá 1917 til 1921. Hátindur hans var án nokkurs vafa sigur Argentínumanna í Suður-Ameríkukeppninni á heimavelli árið 1921. Staða landsliðsþjálfara var varla til í nútímaskilningi á þeim árum, heldur kom það yfirleitt í hlut reyndasta leikmannsins í hópnum að stýra liðinu og gegndi Calomino því hlutverki á mótinu 1921.

Calomino var víðfrægur fyrir færni sína í að sóla mótherja, í því skyni notaði hann ýmsar gabbhreyfingar og er m.a. sagður hafa verið fyrstur til þess að taka skærin til að blekkja andstæðinginn. Áhersla Calomino á fínar og nákvæmar hreyfingar með boltann gerðu það að verkum að þunglamalegir fótboltaskór samtímans hentuðu honum afar illa, þess í stað spilaði hann yfirleitt í strigaskóm. Í landsleik gegn Úrúgvæ einhverju sinni þóttu honum skórnir svo heftandi að hann ákvað að ljúka leiknum frekar á sokkaleistunum.

Pedro Calomino lést árið 1950, 57 ára að aldri.